154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:32]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Já, eftir hræðsluáróðursræðu hjá hv. þm. Ingu Sæland, (IngS: Staðreynd, ekki hræðsla.) hræðsluáróður, (Gripið fram í.) þá ætla ég að fara í smá sögustund vegna þess að það er stundum ágætt að reyna að læra af sögunni í stað þess að reyna að búa hana til. Sem ungur drengur, þegar ég kom heim til afa míns sem var þingmaður, var oft gert grín að því að það væri verið að hlera símann hans. Því hljóp ég oft að símtækinu, lyfti því upp og sagði: Hættið að hlera, og skellti aftur á. Þetta var náttúrlega bara gamanleikur hjá ungum dreng sem vissi ekki betur. En svo var það dálítið mörgum árum seinna, 2006, sem þáverandi sagnfræðingur og núverandi hæstv. forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, svipti hulunni af pólitískum hlerunum á Íslandi á árunum 1949–1969 í bók sinni Óvinir ríkisins. Þessari bók var fylgt eftir með fyrirspurnum og rannsóknum fyrrverandi hv. þingmanna, Kjartans Ólafssonar og Össurar Skarphéðinssonar. Rannsóknir þeirra og fyrirspurnir leiddu í ljós að símar tólf hv. þingmanna, þar af níu þingmanna sem voru sitjandi þingmenn þegar þeir voru hleraðir, höfðu verið hleraðir á þessu tímabili oftar en einu sinni. Fyrir þá sem vilja sjá hverjir þetta voru þá mæli ég með smá leikfimi á netinu og að fletta því upp, en flestir voru þetta þingmenn úr vinstri flokkunum; Alþýðubandalaginu, Alþýðuflokknum, Sósíalistaflokknum o.s.frv.

Það var athyglisvert þegar farið var að skoða hvernig leyfi höfðu verið gefin fyrir þessum hlerunum að það var einstaka sinnum bent á einhverja lagabálka sem ættu við en í mjög mörgum tilfellum voru þessar hleranir leyfðar án þess að vísun væri í neinar lagagreinar heldur dugði að það kæmi bréf frá dómsmálaráðherrum sem voru reyndar allir dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins. (BHar: Ertu að tala um …) Ástæðurnar sem voru oft gefnar í bréfunum voru að hætta gæti verið á óspektum. Þetta er ansi góð hætta. Ég spyr sjálfan mig hvort það sé hætta á óspektum ef ég rölti út og segi halló við mótmælendur eða jafnvel veifa þeim í gegnum gluggann, hvort það sé kannski nægilegt til þess að ég sé að skapa hættu á óspektum. En það var víst nóg til að símar gætu verið hleraðir. Einn þessara þingmanna sem komu fram á þessum lista var einmitt afi minn, Einar Olgeirsson, en samkvæmt gögnunum var sími hans hleraður a.m.k. fimm sinnum á þessu tímabili.

Þýski heimspekingurinn Georg Hegel er sagður hafa sagt að það sem við lærum af sögunni sé að við lærum ekki af sögunni. Það er kannski eitthvað sem við ættum að hafa í huga þegar við erum allt í einu að fara að veita mun víðari heimildir til þess að fylgjast með fólki, þar á meðal hlera það.

Síðastliðið vor spurði ég þáverandi hæstv. dómsmálaráðherra um fjölda alþingismanna og annarra stjórnmálamanna sem lögreglan hefur fengið heimildir til að hlera frá árinu 1944 til ársins í ár. Ég taldi mig nú vera að spyrja nokkuð auðveldrar spurningar, ekki spurningar sem fæli í sér að ég vildi fá nöfnin á öllum, þ.e. hvort lögreglan væri t.d. að hlera mig vegna mögulegra óspekta. Spurningin var, með leyfi forseta:

„Hver er fjöldi alþingismanna og annarra stjórnmálamanna sem lögreglan hefur fengið heimild til að hlera frá árinu 1944 til dagsins í dag, sundurliðaður eftir árum?“

Svarið sem ég fékk frá dómsmálaráðuneytinu og mig langar til að lesa, var — og munið að ég spurði um frá 1944 — með leyfi forseta:

„Í málaskrárkerfi lögreglu (LÖKE) er haldið utan um tilteknar upplýsingar er varða rannsókn sakamála. Í málaskrárkerfinu er hins vegar ekki almennt skráð hvaða starfi eða embætti sá sem beittur er hlerunum gegnir eða þá hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi tilheyrir.“ — Ég spurði reyndar ekkert um stjórnmálaflokkinn. — „Umbeðnar upplýsingar liggja því ekki fyrir. Með svari þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort heimilt væri að veita umbeðnar upplýsingar, lægju þær fyrir.“

Ég veit að LÖKE-kerfið er æðislegt en ég held að það hafi ekki verið í gildi frá 1944 til 2000 eða eitthvað svoleiðis þannig að það hefði mátt fletta upp upplýsingum einhvers staðar annars staðar, t.d. mætti nota sömu aðferð og þáverandi dómsmálaráðherra gerði þegar hann svaraði fyrirspurn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, sem var nú enginn annar en guðfaðir Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra Björn Bjarnason, sem fékk þessar upplýsingar úr Þjóðskjalasafninu. Viti menn. Það var ekki einu sinni farið í að skoða það, varðandi þetta tímabil sem ég bað um, 1944 til dagsins í dag, að búið var að svara um 1949–1969. Það hefði verið hægt að vísa bara í það. Nei, í staðinn fékk ég loðnasta svar sem ég hef fengið við nokkurri fyrirspurn hér á Alþingi.

Af hverju skiptir þetta máli? Jú, hv. þingmenn, við höfum hingað til búið í lýðræðisríki þar sem hlutir eins og þetta eru ekki litnir mjög saklausum augum heldur tökum við það alvarlega þegar verið er að hlera pólitíska fulltrúa. En ég hef líka búið í landi þar sem rannsóknarheimildir lögreglu eru algerar, þar sem símar eru hleraðir, þar sem fylgst er með þér á almannafæri, þar sem fylgst er með allri internetnotkun, þar sem stjórnarandstæðingar eru handteknir eða smánaðir með upplýsingum sem aflað er á þann máta, til þess að stjórna landi. Það er ekki land eins og ég vil að Ísland líti út. Ég vil að við horfum til þess þegar við tökum alvarlegar ákvarðanir eins og þær hvort hlera eigi t.d. síma hv. þm. Ingu Sæland, vegna þess að hún var að espa fólk upp hérna áðan, algjörlega. Ég held það hafi jafnvel verið hætta á óspektum eftir þetta allt saman. Ha? Það er bara allur her Ingu Sæland að koma hingað og ráðast á mig á eftir, er það ekki? Ég segi svona í gríni. En öllu gríni fylgir alvara. Ekki viljum við að nú sé farið að hlera síma hv. þingmanns eingöngu vegna orða hennar hér áðan. Það er nákvæmlega það sem þarf að gera. Ef það að fara til dómara sem hefur gefið öryggisvottun, dómara sem hægt er að fara til og fá slíkt, jafnvel hægt að hafa þá fleiri en einn þannig að hægt sé að hafa þá á vöktum 24/7 … (Gripið fram í.) — Ef við gerum þetta þá er hægt að tryggja að það sé alla vega einhver varnagli á þessu. Ég held að það myndi strax fá einhvern dómara til að spyrja: Af hverju eruð þið að biðja um að fá að hlera síma hv. þm. Gísla Rafns Ólafssonar?

Þetta eru hlutir sem við þurfum að skoða og við þurfum að geta talað um þessa hluti hér á Alþingi og fundið þennan meðalveg. Já, kannski þarf að bæta rannsóknarheimildir eitthvað en gerum það á þann máta að við tryggjum lýðræði. Þó svo að við séum nú nokkuð góðir vinir öll hér inni í dag þá verðum við að muna það að lög sem við setjum geta gilt þegar einhverjir stórskrýtnir aðilar eru komnir til valda, einhverjir sem er alveg sama um lýðræði. Við höfum séð hvað er að gerast t.d. í landi eins og Ungverjalandi þar sem verið er að ráðast á lýðræðið. Það kom vel fram í fréttaskýringarþætti á RÚV um daginn þar sem farið var einmitt yfir hvernig lýðræðið hefur horfið þar af því að það var byrjað að ráðast á þessar grundvallarstoðir réttarkerfisins og síðan á restina af lýðræðinu.

Ég sé að ég er að fara að svara fullt af andsvörum hér þannig að ég ætla bara að bjóða fólk velkomið.